Grasrótarhreyfingin Göngum saman sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameinum á Íslandi stendur fyrir þriðju og síðustu kynningu sinni í Hringsal á Landspítala Hringbraut laugardaginn 17. mars 2012 í tilefni af 5 ára afmæli hreyfingarinar í ár. Þessar kynningar eru í samstarfi við vísíndafólk og ætlaðar almenningi.
Dagskráin 17. mars hefst kl. 13.00
í Hringsal á Landspítala (gengið inn í Barnaspítalann):
Samstarfshópur á Landspítalanum um rannsóknir á brjóstakrabbameini tekur á móti gestum. Þau Aðalgeir Arason líffræðingur, Bjarni Agnar Agnarsson meinafræðingur og yfirlæknir Rannsóknastofu í meinafræði, Inga Reynisdóttir, sameinda- og frumulíffræðingur, Óskar Þór Jóhannsson krabbameinslæknir og erfðaráðgjafi og Rósa Björk Barkardóttir, sameindalíffræðingur halda hver fyrir sig einn örfyrirlestur (hver fyrirlestur 10 mínútur) sem tengjist brjóstakrabbameini og rannsóknum á meininu.
Í framhaldinu verður opið hús hjá Rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði þar sem gestum gefst kostur á að hitta starfsfólk og fræðast um stofnunina. Þau munu leiða í gegnum greiningarferil lífssýnis sem tekið er þegar grunur vaknar um krabbamein. Einnig verður sýnd einangrun á erfðaefni úr blóðsýnum og ferill þess gegnum raðgreiningatæki. Boðið verður upp á hressingu.