Spennandi starf fyrir hjúkrunarfræðing í Laufeyjarteymi
Hjúkrunarfræðingur með brennandi áhuga á þverfaglegri vinnu með einstaklingum með samslátt geð- og vímuefnavanda óskast til starfa í hlutverk málastjóra og hjúkrunarfræðings í Laufeyjarteymi Landspítala. Starfið býður upp á mörg spennandi tækifæri til starfsþróunar.
Staðan er laus frá 15. febrúar eða eftir samkomulagi og er starfshlutfall 70-100%. Fjölskylduvænn vinnutími. Eingöngu er um dagvinnu að ræða en sé óskað eftir vöktum er það möguleiki í samstarfi við legudeild einingarinnar: Bráðalegudeild geð- og fíknisjúkdóma 32A.
Laufeyjarteymi þjónustar einstaklinga sem lifa með langvarandi samslætti geðsjúkdóma og fíknar, á því stigi að hvort um sig er alvarlegt og óstöðugt í eðli sínu og fyrri og vægari meðferðarnálganir hafa ekki skilað árangri eða bættum lífsgæðum. Teymið þjónustar einstaklinga í þeirra nærumhverfi, vettvangsþjónusta. Unnið er eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar, batamiðaðri hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtals og geðlæknisfræði. Meginverkefni teymisins eru að efla færni og hæfni til sjálfsumönnunar, auka virkni og tengsl við samfélagið og aðstandendur, efla áhugahvöt skjólstæðinga til breytinga og auka þekkingu skjólstæðinga á sjúkdómnum og bjargráðum.
Starfsemin er í stöðugri þróun og lögð er áhersla á virkt umbótastarf. Hjúkrunarfræðingum standa til boða mikil tækifæri til vaxtar í starfi með markvissri handleiðslu og faglegum stuðningi. Í teyminu starfa hjúkrunarfræðingar, læknar, félagsráðgjafar og málastjórar.
Hlutverk hjúkrunarfræðinga í teyminu er fjölbreytt. Hjúkrunarfræðingur ber ábyrgð á sértækum þáttum meðferðarinnar, lyfjaumsjón og mati á geðrænum einkennum, samskiptum við aðstandendur, búsetukjarna og önnur úrræði og heldur utan um þá meðferð og endurhæfingu sem einstaklingurinn þarf á að halda.
Laufeyjarteymi er þverfaglegt teymi sem er starfrækt á göngudeild geð- og fíknisjúkdóma. Tvö teymi eru á göngudeildinni, Laufeyjarteymi og göngudeildarteymi og er mikið samstarf á milli þessara teyma. Möguleiki er á því að hjúkrunarfræðingur starfi í báðum teymum ef áhugi á því er fyrir hendi.
- Virk þátttaka í þverfaglegri þjónustu fyrir einstaklinga og aðstandendur
- Málastjórnun og þverfaglegt samstarf, þátttaka í að ákveða, skipuleggja og veita viðeigandi hjúkrunarmeðferðir
- Mat á einstaklingsbundnum þörfum og geðrænum einkennum
- Þróun, eftirfylgd og vöktun meðferðaráætlana, lyfjagjafir og mat á árangri þjónustunnar.
- Samskipti, hvatning, fræðsla, leiðbeiningar og heildrænn stuðningur
- Virk þátttaka í framþróun þjónustu og umbótastarfi
- Ýmis fjölþætt verkefni og þátttaka í umbótastarfi
- Íslenskt hjúkrunarleyfi
- Reynsla af geðhjúkrun er kostur
- Reynsla af hjúkrun einstaklinga með vímuefnavanda og geðvanda er kostur
- Þekking á hugmyndafræði skaðaminnkunar
- Faglegur metnaður og ábyrgð í starfi sem og einlægur áhugi á að þjónusta og sinna einstaklingum með geðsjúkdóma og vímuefnavanda.
- Reynsla af sambærilegum störfum er kostur
- Framúrskarandi samskiptahæfni og hæfni til að vinna sjálfstætt og í teymi
- Jákvætt hugarfar, metnaður og færni til að skipuleggja og forgangsraða verkefnum
- Stundvísi og áreiðanleiki
- Góð almenn tölvukunnátta
- Góð færni í íslensku og ensku, bæði í mæltu og rituðu máli
- Bílpróf
Frekari upplýsingar um starfið
Allar umsóknir þurfa að fara rafrænt í gegnum ráðningarkerfi ríkisins. Umsókn fylgi náms- og starfsferilskrá ásamt kynningarbréfi og afriti af prófskírteinum og starfsleyfi. Fylgiskjöl skulu vera á pdf formi.
Tekið er mið af jafnréttisstefnu Landspítala við ráðningar á spítalanum. Öllum umsóknum verður svarað.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem um 7000 einstaklingar starfa í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta. Framtíðarsýn Landspítala er að þar sé veitt framúrskarandi heilbrigðisþjónusta byggð á vísindum, fagmennsku og umhyggju, öflugu fagfólki og studd með umgjörð og aðbúnaði sem sómi er að.
Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012, úttekt framkvæmd af Versa vottun ehf.
Umsóknir geta gilt í 6 mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum með síðari breytingum.
Starfsmerkingar: Heilbrigðisþjónusta, Hjúkrunarfræðingur, hjúkrun
Tungumálahæfni: íslenska 4/5 enska 4/5