Heilsuhætta vegna öskufalls

16. apríl 2010

 

Gosaska er samsett úr misfínum ögnum. Stærð agnanna skiptir verulegu máli, eftir því sem agnirnar eru smærri er meiri hætta á að askan berist djúpt ofan í lungu og valdi lungnasjúkdómum. Kornastærðargreining á öskusýni úr Eyjafjallajökli bendir til að um fjórðungur öskunnar flokkist undir svifryk sem eru korn minni en 10µíkron en þau berast mjög greiðlega ofan í lungu. Sýni sem tekin voru á fyrsta sólarhring eftir að gos hófst benda til að askan innihaldi uþb 25 mg /kg af flúor sem getur haft bæði bráð- en þó einkum langvinn eituráhrif á grasbítandi dýr.
Í mönnum hefur gosaska einkum áhrif á öndunarfæri, augu og húð. Ef aska er meiri en 100 g á fermetra er verulega aukin hætta á eituráhrifum á líkamann, sérstaklega hjá þeim sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma.

Leiðbeiningar um viðbúnað fyrir, eftir og á meðan á öskufalli stendur (PDF)


Öndunarfæri:

  • Nefrennsli og erting í nefi.
  • Særindi í hálsi og þurr hósti.
  • Fólk sem þjáist af lungnasjúkdómum, t.d. astma, er viðkvæmara fyrir öskunni og getur fengið langvarandi hósta, uppgang og öndunarerfiðleika.

Augu:

  • Augnsærindi, kláði, tárarennsli,tilfinning um aðskotahlut.
  • Skrámur á sjónhimnu.
  • Bráð augnbólga, blóðhlaupin augu, ljósfælni.
  • Aukin hætta á einkennum hjá fólki með augnlinsur.

Húð:

  • Erting, sviði, roði og kláði í húð, einkum ef askan er súr.


Ráðleggingar til fólks þar sem öskufalls gætir:

  • Lágmarka veru utanhús eins og kostur er.
  • Nota hlífðarföt.
  • Nota rykgrímur sem taka mjög smáar agnir.
  • Nota hlífðargleraugu.
  • Börn og fullorðnir með öndunarfærasjúkdóma ættu að halda sig innanhúss.
  • Fólk með öndunarfærasjúkdóma ætti að fylgjast vel með einkennum og ef þau fara vaxandi, þá að auka við meðferð eða hafa samband við lækni.
  • Ekki nota augnlinsur.

Eitrunarmiðstöð Landspítala
Nefnd um viðbrögð við hópeitrunum