Eru eitranir algengar á Íslandi
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á eitrunum á Íslandi 2001 -2002(1) leituðu rúmlega ellefuhundruð manns á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar á landinu vegna eitrana á 12 mánaða tímabili. Á sama tíma bárust eitrunarmiðstöðinni tæplega ellefuhundruð símafyrirspurnir vegna eitrana. Gera má því ráð fyrir að a.m.k. tvöþúsund og tvöhundruð manns leiti til heilbrigðiskerfisins árlega vegna eitrana.
|
|
Börn
Undanfarin ár hafa fyrirspurnir til eitrunarmiðstöðvarinnar vegna barna 6 ára og yngri verið fimm til sexhundruð á ári. Flestar eitranir sem lítil börn verða fyrir gerast á heimilum og eru vegna ýmis konar efna sem algeng eru á heimilum. Má þar nefna hreinsiefni t.d. þvottaefni fyrir uppþvottavélar, bleikiefni (klór), salmíakspíritus (ammóníak), ofnahreinsiefni, grillkveikilög, aseton, ilmvötn, rakspíra, sótthreinsispritt, áfengi, terpentínu, frostlög og plöntur. Lyfjaeitranir eru ekki eins algengar í þessum aldurshópi en koma þó alltof oft fyrir. Oftast er um að ræða verkjalyf (parasetamól), járn og vítamín sem fólk geymir á stöðum sem börn hafa greiðan aðgang að. Sem betur fer eru flestar eitranir í börnum minniháttar en alvarleg tilfelli koma upp.