Eitur í lofti

Eitranir vegna eitraðra lofttegunda eru talsvert algengar. Þær eru mjög lúmskar og stundum getur verið erfitt að átta sig á að um eitur í lofti er að ræða. Sterk vísbending um að svo sé er ef fleiri en einn eða margir á sama svæði eru með sömu einkenni.

Kolmónoxíð er eitruð lofttegund sem er lyktarlaus og myndast við ófullkominn bruna eldsneytis, t.d. frá bílum og öðrum ökutækjum, hitatækjum, grillum o.fl. Mjög mikilvægt er að nota ekki gaskyndingu innanhúss nema það sé tryggt að gott útblásturskerfi sé til staðar. Annars má alls ekki sofa með slík tæki eða nota þau lengi í lokuðu herbergi eða í tjaldi. Fyrstu einkenni eitrunar líkjast flensu og eru t.d. höfuðverkur, ógleði, uppköst, máttleysi, drungi, yfirlið og einbeitingarerfiðleikar. Ef ekkert er að gert leiðir eitrunin til dauða. Ef margir eru samankomnir, t.d. heil fjölskylda í sumarbústað, tjaldi eða annars staðar þar sem notuð er gaskynding og allir hafa ofangreind einkenni er mjög líklegt að um kolmónoxíð eitrun sé að ræða.

 


Lífræn leysiefni

Mikilvægt er að umgangast og nota lífræn leysiefni með varúð, nokkuð er um að fullorðnir og börn hafi fengið lungnabólgu vegna lífrænna leysiefna annað hvort eftir innöndun eða inntöku. Varast ber að anda að sér lífrænum leysiefnum í lokuðu rými og nauðsynlegt er að hafa alltaf góða loftræstingu þegar þessi efni eru notuð, t.d. þegar verið er að vatnsverja skó, leysa upp gamla málningu og þess háttar.

Blöndun hreinsiefna

Eitraðar lofttegundir geta myndast við blöndun ýmissa hreinsiefna sem til eru á heimilum, t.d. getur myndast eitrað klórgas þegar venjulegur klór til heimilisnota og salernishreinsiefni er blandað saman. Þetta er yfirleitt tekið fram utan á umbúðum efnanna, þess vegna er mikilvægt að lesa allar merkingar á umbúðum vel áður en efnin eru notuð.