Vökudeild, nýburagjörgæsludeild Barnaspítala Hringsins, fékk 9. nóvember 2021 afhenta veglega gjöf frá aðstandendum og velunnurum stúlku sem naut þjónustu deildarinnar fyrr á árinu.
Tilefni gjafarinnar er að foreldrunum Gunnari Erni og Gunnhildi Erlu fæddist stúlkubarn, Ásthildur Rúna, 8. janúar eftir rúmlega 32 vikna meðgöngu en hún vó aðeins 1.356 grömm og var 40 sentimetrar. Litla stúlkan naut aðhlynningar næstu tvo mánuðina og hefur dafnað vel síðan.
Í þakklætisskyni fyrir þjónustuna efndu foreldrarnir til söfnunar fyrir Vökudeildina og nutu stuðnings fjölda einstaklinga auk fyrirtækjanna Móðurástar, IcePharma og Eirbergs.
Söfnunin skilaði Vökudeild eftirtöldum tækjabúnaði sem kemur starfseminni afar vel:
- 18 ungbarnavogir, 16 þeirra nýtast í göngudeildarþjónustu barna sem útskrifast heim með sondu og tvær þeirra eru fullkomnari og munu nýtast inni á deildinni.
- 5 lampar, á fjölskylduherbergi.
- Nuddtæki fyrir stífar axlir.