Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ávarpaði ársfund Landspítala 2019 í Hörpu.
Þar sem ráðherra var á þeim tíma erlendis var ávarpið tekið upp og sýnt á tjaldi.
Góðir ársfundargestir!
„Þið sjáið mig – en ég sé ykkur ekki“ sagði þekktur skemmtikraftur í sjónvarpi fyrir margt löngu sem frægt varð. Ég geri orð hans að mínum þar sem ég gat því miður ekki verið með ykkur í efninu hér í dag. Hugur minn er engu að síður hjá ykkur og því var kærkomið að fá tækifæri til að segja við ykkur nokkur orð þótt við stöndum ekki augliti til auglitis.
Heilbrigðismál eru heldur betur í deiglunni um þessar mundir og ég hef því af mörgu að taka.
Af opinberri umræðu að dæma mætti stundum ætla að íslenska heilbrigðiskerfið væri í hers höndum og að grundvallarágreiningur væri um alla meginþætti þess. - Sem betur fer er þetta ekki svo, öðru nær.
Í meginatriðum ríkir sátt um hugmyndafræðina sem heilbrigðiskerfið byggir á og um markmið þess. Það er breið samstaða um að ríkið eigi að reka opinbert heilbrigðiskerfi með jöfnuð að leiðarljósi sem tryggir öllum landsmönnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, búsetu eða öðrum aðstæðum.
Við höfum ágætt heilbrigðiskerfi byggt á þessari hugmyndafræði. Kerfið er þó fjarri því gallalaust og í sumum atriðum er það brotakennt. Aðgengi landsmanna að þjónustu er í ýmsu misskipt eftir búsetu, biðlistar eftir tilteknum aðgerðum eru of langir og þörfum fólks fyrir samfellda þjónustu er ekki mætt sem skyldi.
Góðir áheyrendur!
Eitt af því sem mér þótti blasa við þegar ég varð heilbrigðisráðherra var að setja stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið í algjöran forgang enda búið að kalla eftir slíkri stefnu lengi.
Heilbrigðiskerfið er fjöregg þjóðarinnar. Það er mikilvægt, það er viðkvæmt og það er kostnaðarsamt. Árleg útgjöld til heilbrigðismála nema um fjórðungi allra útgjalda ríkisins. Við ráðstöfun þeirra fjármuna verður ríkið að hafa skýra stefnu um hvaða þjónustu eigi að kaupa, hvernig, til hvers, fyrir hverja, í hvaða mæli og af hverjum.
Tillaga að heilbrigðisstefnu til ársins 2030, sem ég vonast til að verði samþykkt á Alþingi á allra næstu dögum, fjallar meðal annars um þetta. Hún fjallar líka um skipulag þjónustunnar, um verkaskiptingu og ólík hlutverk þjónustuveitenda og samspil þeirra á milli, um gæði, um menntun heilbrigðisstarfsfólks, um mönnun heilbrigðiskerfisins og svo ótal margt fleira.
Heilbrigðisstefnan dregur fram að þegar við handleikum fjöregg þjóðarinnar verðum við að vera meðvituð um hvert einasta skref og hverja einustu hreyfingu. Gáleysi og tilviljanakenndar aðgerðir geta reynst afdrifaríkar og skaðlegar.Í þessu samhengi nefni ég hve mikilvægt er að kaup á heilbrigðisþjónustu stýrist af þjónustuþörf en ekki framboði og minni á þá skyldu heilbrigðisyfirvalda að stofna ekki til samninga um veitingu heilbrigðisþjónustu sem vega að stoðum hins opinbera heilbrigðiskerfis, líkt og segir svo skýrt í lögum um sjúkratryggingar.
Gott fólk!
Þegar ég heyri orðið áskorun fer ég strax að hugsa um heilbrigðiskerfið og framtíð þess. En mér detta líka í hug orð eins og sókn og tækifæri og þeim mun oftar eftir því sem ég kynnist þessum málaflokki betur og öllu því vel menntaða og hæfa starfsfólki sem vinnur á þessu sviði.
Af stórum áskorunum er öldrun þjóðarinnar ásamt ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum offitu nærtæk dæmi. Mönnun heilbrigðiskerfisins er stórmál og margt sem lýtur að lyfjamálum sömuleiðis.
Ef við hugsum um sókn og tækifæri, þá höfum við líka af mörgu að taka þar. Reglubundnar sprengingar frá framkvæmdum við Landspítalann minna okkur þrisvar á dag á þá stórkostlegu uppbyggingu sem þar á sér stað, sem mun gjörbreyta aðstæðum fyrir starfsfólk og sjúklinga spítalans.
Nýja sjúkrahótelið við Hringbraut er komið í notkun og við eigum eftir að sjá mikinn ávinning af rekstri þess, fyrir sjúklinga og fyrir starfsemi Landspítalans.
Heilsugæslan er í sókn og efling hennar á höfuðborgarsvæðinu hefur þegar fækkað komum á bráðamóttöku Landspítalans umtalsvert.
Nýjum hjúkrunarrýmum fyrir aldraða fjölgar hratt þessi misserin enda stórsókn á því sviði. Norrænt samstarf um kaup á lyfjum er loksins orðið að veruleika, þótt það sé enn á tilraunastigi. Mjór er mikils vísir.
Það er fyrirséð að fyrirkomulag spítalaþjónustu er að breytast. Dag- og göngudeildarþjónusta tekur í vaxandi mæli við hefðbundinni legudeildarþjónustu og ný meðferðartækni dregur úr þörf fyrir sjúkrahúslegu sem áður var óhjákvæmileg. Legudögum fækkar og sífellt fjölgar í þeim hópi sem unnt er að þjónusta án sjúkrahúslegu
Á ársfundi Landspítala í fyrra talaði ég um Landspítalann sem meginland í íslensku heilbrigðiskerfi en um leið hluta af mikilvægri heild því eins og dæmin sanna hafa ákvarðanir sem teknar eru á einum stað í heilbrigðiskerfinu áhrif á aðra þætti þess.
Landspítalinn er grunnstoð heilbrigðiskerfisins, hann er í virku samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir og gegnir þar forystuhlutverki. Það er mikilvægt til að samþætta þjónustu heilbrigðiskerfisins og tryggja gæði og öryggi hennar.
Ég nefndi öldrun þjóðarinnar og vandann sem stafar af lífsstílstengdum sjúkdómum sem stórar áskoranir til framtíðar. Þarna er margt hægt að gera til úrbóta með markvissum forvörnum og heilsueflingu fólks á öllum aldursskeiðum og hvatningu til ábyrgðar á eigin heilsu. Við getum án nokkurs vafa gert fólki betur kleift að bæta heilsu sína, viðhalda andlegu og líkamlegu heilbrigði mun lengur en ella. Kannski felast stærstu tækifærin þarna því góð lýðheilsa er gulls ígildi í orðsins fyllstu merkingu.
Kæru vinir!
Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en óska ykkur ánægjulegs ársfundar.
Veriði sæl!