Leit
Loka

Kvenlækningadeild - bráðamóttaka og göngudeild

Bráðaþjónusta fyrir kvensjúkdóma, krabbameinslækningar kvenna og konur sem þurfa að leita til kvennadeildar innan 14 daga frá aðgerð. Einnig göngudeildarþjónusta og móttaka vegna þungunarrofs.

Deildarstjóri

Hrund Magnúsdóttir

hrundmag@landspitali.is
Yfirlæknir

Kolbrún Pálsdóttir

kolbrunp@landspitali.is

KvennadeildirRS-veira - Sýkingarhætta

Vegna sýkingarhættu af RS-veiru eru allar heimsóknir barna yngri en 12 ára bannaðar á vökudeild, fæðingarvakt, meðgöngu- og sængurlegudeild og göngudeild mæðraverndar. Aðrar heimsóknir er takmarkaðar

Banner mynd fyrir  Kvenlækningadeild - bráðamóttaka og göngudeild

Hafðu samband

OPIÐ

Símatími frá kl 8:00-12:00 og 13:00-15:45 alla virka daga.

Kvenlækningadeild - bráðamóttaka og göngudeild  - mynd

Hér erum við

Hringbraut - Kvennadeildir 1. hæð B álma

Hagnýtar upplýsingar

Móttökudeild kvenlækningadeildar er á 1. hæð kvennadeildar Landspítala og skiptist hún í bráðamóttöku og göngudeild.

Móttökudeildin er hluti af kvenlækningadeild og er opin frá klukkan 08-16 virka daga. Utan þess tíma er bráðatilvikum sinnt af bráðaþjónustu kvennadeilda. Á bráðamóttöku kvenna er nauðsynlegt að hafa tilvísun, annaðhvort frá læknum á slysa- og bráðamóttöku Fossvogi, sérfræðilæknum á stofu eða heilsugæslulæknum.

Tilvísunar er þó ekki þörf ef um er að ræða blæðingu eða verki á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu en nauðsynlegt er að hafa samband og bóka tíma.

Mikilvægt er að hafa samband við heilsugæslustöð eða lækni áður en komið er á bráðamóttöku kvenna þar sem nauðsynlegt er að hafa tilvísun frá lækni.
Tilvísunar er ekki þörf ef um er að ræða blæðingu eða verki á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu.

Á Kvenlækningadeild – bráðamóttöku og göngudeild er:

  • Bráðaþjónusta fyrir kvensjúkdóma (tilvísanamóttaka)
  • Bráðaþjónusta vegna vandamála á fyrsta þriðjungi meðgöngu (fyrstu 12 vikum)
  • Þjónusta við konur með krabbamein í kvenlíffærum
  • Þjónusta við konur með vandamál innan 14 daga frá aðgerð á kvenlækningadeild
  • Móttaka og meðferð vegna þungunarrofa
  • Göngudeildarþjónusta kvensjúkdómalækna
  • Aðgerðarstofa þar sem framkvæmdar eru ýmsar smáaðgerðir í staðdeyfingu svo sem keiluskurðir og leghálsspeglanir.

Frjósemistímabil kvenna spannar yfir 30 ár og ekki er óalgengt að ótímabær þungun verði einhvern tíma á þessu tímabili. Það getur gerst fyrir alla og stundum þarf að taka erfiða ákvörðun um að enda þungunina.

Á Íslandi er löggjöf sem heimilar að enda þungun fram að lokum 22. viku. Í lögum um þungunarrof (nr.43) stendur: 

 Kona, sem óskar þess, á rétt á að fá þungun sína rofna fram að lokum 22. viku þungunar. Þungunarrof skal ætíð framkvæmt eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku þungunar.

Lög um þungunarrof nr.43/2019 

Þungunarrof er gert á sjúkrastofnunum og flest á kvennadeild Landspítala.

Ef þú ert að íhuga að enda þungun geturðu leitað þangað / If you are considering ending a pregnancy

Skref 1: Staðfesta þungun með þungunarprófi.

Skref 2: Hringja í símsvara kvennadeildar í síma 543-3600 og leggja inn skilaboð þar sem taka þarf fram nafn, kennitölu og símanúmer. Við munum senda þér spurningalista í Landspítala appið og fræðsluefni í gegnum Heilsuveru.

Skref 3: Þegar þú ert búin að svara spurningalista og kynna þér fræðsluefnið getur þú hringt í móttöku kvennadeildar og fengið tíma. Hægt er að bóka tíma frá kl 8:00-12:00 og 13:00-15:45 alla virka daga í síma 543 3224 og 543 3266.

In English:

Step 1: Confirm the pregnancy with a home pregnancy test.

Step 2: Call the answering machine regarding termination of pregnancy, phone number: 543-3600. Leave a message with your name, social security number if you have one or your date of birth and your phone number. We will send you educational material to Heilsuvera and a questionnaire via the Landspítali app.

Step 3: When you have completed the questionnaire and read the educational material please call us to book an appointment. You can call on weekdays between 8-16, the phone numbers are 542 3224 and 543 3266.
Please call us to cancel your appointment if you are not going to show up.

Tvenns konar meðferð í boði

Þungunarrof er hægt að framkvæma á tvenns konar hátt, með lyfjum eða aðgerð.

A. Þungunarrof með lyfjum er yfirleitt fyrsta val. Hægt er að byrja meðferð við 6. viku þegar þungun hefur verið staðfest með sónarskoðun. Meðferðin getur oftast hafist að læknisskoðun lokinni. Þungunarrof með lyfjum er 3ja daga meðferð

Dagur 1: Gefið er lyf sem tekið er um munn hjá hjúkrunarfræðingi á kvennadeild.
Dagur 2: Þennan dag getur byrjað að blæða og geta tíðaverkir komið fram en það er allt eðlilegur hluti af ferlinu.
Dagur 3: Fjórar töflur eru settar hátt upp í leggöng snemma að morgni og verkjalyf tekin á sama tíma. Lyfið mýkir leghálsinn og veldur samdráttum í leginu og kemur af stað blæðingu og verkjum. Blæðingar ættu að hefjast um 3-4 klukkustundum eftir að töflur eru settar upp í leggöng. Það er einstaklingsbundið hvað blæðir mikið en oftast er um að ræða kröftugar tíðablæðingar með kögglum.

Upp að 9. viku er hægt að framkvæma meðferðina heima en þá er mikilvægt að hafa einhvern fullorðinn hjá sér ef eitthvað kemur upp á eins og getur gerst við allar meðferðir. Ef þörf er á er haft samband við beinan síma hjá hjúkrunarfræðingi á kvennadeild á meðferðardegi.

Að 5 vikum liðnum frá meðferðinni er mikilvægt að gera þungunarpróf heima og fylla út gátlista sem afhentur er í ferlinu. Ef eitthvað óeðlilegt kemur fram við svörun á gátlista er haft samband við kvennadeildina.

Ef meðferðin er framkvæmd á 9.-12. viku er nauðsynlegt að vera undir eftirliti á kvenlækningadeild á meðferðardegi. Gera má þá ráð fyrir heimferð seinnipart dags.

Eftir 12. viku meðgöngu er þungunarrof eingöngu framkallað með lyfjum og er þá nauðsynlegt að vera undir eftirliti á kvenlækningadeild. Þegar búið er að staðfesta að meðferð hafi borið árangur má útskrifast heim, yfirleitt samdægurs.

B. Þungunarrof með aðgerð 

Frá 7. til 12. viku er hægt að framkvæma þungunarrof með aðgerð í svæfingu. Eftir læknisskoðun þar sem þungun er staðfest með sónarskoðun er hægt að gefa tíma í aðgerð sem getur orðið að nokkrum dögum eða viku liðinni.

Að morgni aðgerðardags þarf að setja töflur hátt upp í leggöng til að undirbúa legháls fyrir aðgerð. Mæting er snemma morguns á aðgerðardegi, fastandi á kvenlækningadeild 21A. Aðgerðin er framkvæmd í stuttri svæfingu og tekur um 10 mínútur.

Ferlið frá því að komið er á skurðstofuna og þar til komið er aftur á deild eftir aðgerð tekur um eina klukkustund.

Þegar búið er að jafna sig má fara heim. Gera þarf ráð fyrir því að láta sækja sig eftir aðgerð þar sem ekki má keyra sjálfur vegna áhrifa svæfingarlyfja. Eins er ráðlagt að hafa einhvern hjá sér fyrstu nóttina eftir aðgerð til öryggis.

Yfirleitt er ekki þörf á frekari eftirliti þegar um aðgerð er að ræða.

Andlegur stuðningur

Fáir vilja vera í þeirri stöðu að þurfa að taka ákvörðunum þungunarrof en stundum eru aðstæður þannig að þó að vilji sé fyrir hendi þá bjóða aðstæður ekki upp á barn.

Að taka þessa ákvörðun krefst þess að viðkomandi þarf að skoða vel aðstæður sínar og byggja ákvörðun sína á eigin mati á aðstæðunum.

Starfsfólk kvennadeildar sinnir andlegum stuðningi á meðan meðferð fer fram. Ef þörf er á frekari stuðning varðandi ákvarðanatöku eða eftirfylgd er hægt að óska eftir aðkomu félagsráðgjafa kvennadeildar.

Allir eru velkomnir til félagsráðgjafa á kvennadeildinni í samtal.

Félagsráðgjafar vinna eftir heildarsýn og virðingu við einstaklinginn þar sem honum er veitt hlutlaus ráðgjöf og stuðningur í erfiðum aðstæðum. Enginn getur tekið þessa ákvörðun fyrir aðra manneskju en oft er gott að tala við hlutlausan aðila sem getur hjálpað við að skilja kjarnann í aðstæðunum.

Stundum er par ekki sammála um hvaða ákvörðun á að taka og þá er í boði að koma og ræða við félagsráðgjafa.

Ef um er að ræða andlega vanlíðan þá er gott að koma og ræða við félagsráðgjafa sem hefur sérþekkingu á hvernig best er að aðstoða þegar þung ákvörðun bætist við vanlíðan sem fyrir er.

Ekki þarf að greiða fyrir viðtalið hjá félagsráðgjafa.

Oftast fer viðtal við félagsráðgjafa fram áður en farið er í læknisskoðun á kvennadeildinni. Yfirleitt nægir eitt viðtal en stundum eru þau fleiri. Stundum er óskað eftir viðtölum eða stuðning eftir þungunarrof og er það sjálfsagt.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?